Hvað er Pcos

PCOS stendur fyrir Polycystic Ovarian Syndrom eða fjölblöðrueggjastokkaheilkenni á íslensku. Við fengum Guðmund Arason kvensjúkdómalækni, sem sérhæfir sig í innkirtlasjúkdómum kvenna og ófrjósemi og hefur unnið með fjölmörgum konum með PCOS, til þess að útskýra það í stuttu máli. 

„PCOS heilkenni var fyrst lýst fyrir tæpum 90 árum síðan en það var ekki fyrr en um 60 árum síðar að það kom fram samræmd skilgreining á þessu heilkenni sem auðveldaði greiningu og rannsóknir. Einkum eru það þrír þættir sem tilheyra heilkenninu. 

1. Óreglulegar blæðingar (færri en 9 blæðingar á ári).  

2. Einkennandi útlit á eggjastokkum við ómskoðun þ.e. stækkun og fjöldi lítilla eggbúa.  

3. Merki um aukin androgen áhrif á húð s.s. bólur og aukinn hárvöxtur. 

Áætlað er að um 10-15% kvenna á frjósemiskeiði séu með þetta ástand sem gerir þetta einn algengasta innkirtlasjúkdóm hjá konum. Orsök þessara breytinga eru talin vera genatengdar erfðabreytingar. Við rannsóknir á PCOS einstaklingum hefur verið sýnt fram á tengsl PCOS við insúlín efnaskiptin eða svokallað insúlín viðnám. Talið er að mikil hækkun á insúlíni hafi m.a. truflandi áhrif á þroska eggja og trufli þannig egglos og valdi hormónaójafnvægi í eggjastokkum sem getur leitt til minnkunar á frjósemi þessara kvenna. Einnig vegna insúlín viðnáms eru konur með PCOS í aukinni áhættu á vera í yfirþyngd (75% kvenna með PCOS). Aukin hætta er á meðgöngusykursýki, fullorðins sykursýki (T2DM ) sem og aukin áhætta á hjarta og æðasjúkdómum. Vegna þessara víðtæku áhrifa sem PCOS ástand hefur á líf kvenna er það mjög mikilvægt að upplýsa almenning um PCOS og að greina þetta heilkenni sem fyrst til að geta gripið inní og minnkað slæmar afleiðingar PCOS á heilsufar þessara kvenna.„